Ný fornleifarannsókn bendir til þess að móðir Kleópötru, síðasta faraós Egyptalands, hafi verið af afrískum uppruna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Hópur undir stjórn austurríska fornleifafræðingsins Hilke Thuer telur sig hafa fundið grafhýsi Arsinoe,systur Kleópötru í Ephesus í Tyrklandi. Þykir höfuðlag líkamsleifanna sem þar fundust benda til þess að móðir systranna hafi verið af afrískum uppruna.
„Það er einstakt í lífi fornleifafræðings að finna grafhýsi og höfuðkúpu einstaklings sem tilheyrði Ptolemaic veldinu,” segir hún.„Kleópatra, Júlíus Sesar, Markús Antoníus, þau eru öll sögupersónur,” segir fornleifafræðingurinn Neil Oliver, sem fjallar um málið í nýrri heimildarmynd BBC um Kleópötru.
„Það er næstum ómögulegt að hugsa um þau sem raunverulegar persónur en ekki þjóðsagnapersónur í túlkun Richard Burton og Elizabeth Taylor. Það er eins og að fá vatnsgusu í andlitið að reka sig á að þau hafi verið raunverulegar persónur. Þegar ég stóð á rannsóknarstofunni og handlék líkamsleifar systur Kleópötru, vitandi það að hún snerti Kleópötru og jafnvel Júlíus Sesar og Markús Antoníus, fann ég hárin rísa aftan á hálsinum á mér.”
Vitað er að systurnar voru afkomendur hershöfðingja frá Makedóníu, sem náði völdum í Egyptalandi í kjölfar valdatíðar Alexanders mikla. Ekkert er hins vegar vitað um móður þeirra.
Kleópatra er sögð hafa átt í ástarsambandi við Júlíus Sesar Rómarkeisara. Hún giftist síðar Markúsi Antoníus og er sögð hafa fengið hann til að drepa systur sína, Arsinoe.