Netverjar kasta nú sýndartómötum í bandaríska tryggingafélagið AIG til að lýsa vanþóknun sinni á veglegum kaupaukum, sem yfirmenn þar fengu greidda fyrir rúmri viku.
Vefsíðan MoveOn.org býður notendum að kasta tómötum á mynd af AIG. Er markmiðið að 6,4 milljónum sýndartómata verði kastað á fyrirtækið en einn af yfirmönnum AIG fékk einmitt 6,4 milljónir dala í kaupauka fyrir vel unnin störf á síðasta ári þótt fyrirtækið hefði tapað tugum milljarða dala.
Þeir sem heimsækja vefsvæðið geta einnig skrifað undir áskorun um að Bandaríkjaþing krefji AIG um endurgreiðslu á 200 milljónum dala, jafnhárri upphæð og yfirmennirnir fengu í bónusgreiðslur.