Tælenskur slökkviliðsmaður brá sér í hlutverk ofurhetju í Bangkok í gær þegar hann klæddi sig upp sem Köngulóarmaðurinn til að ná dauðskelfdum 8 ára gömlum dreng niður af svölum.
Kennari í skóla drengsins, sem er einhverfur, kallaði eftir aðstoð þegar einn nemandinn, sem fylltist ótta á fyrsta skóladegi sínum, settist út á þaksyllu á þriðju hæð og harðneitaði að koma aftur inn, að því er segir á fréttveitu AFP.
Kennarinn reyndi sitt besta til að ná til drengsins og fá hann til að snúa við en hann sýndi enginn viðbrögð, þar til móðir hans nefndi að hann væri mikill aðdáandi ofurhetja. Slökkviliðsmaðurinn Sonchai Yoosabai brást þá skjótur við og ákvað að reyna nýstárlega leið til að leysa vandann. Hann rauk aftur á slökkviliðsstöðina og skipti í snarhasti í Köngulóarmannsbúninginn sinn.
„Ég sagði honum að Köngulóarmaðurinn væri kominn til að bjarga honum og enginn skrýmsli myndu ráðast á hann. Svo sagði ég honum að ganga rólega til mín því það væri hættulegt að hlaupa,“ segir slökkviliðsmaðurinn ráðagóði.
Drengurinn stóð strax upp og gekk í fangið á ofurhetjunni, að sögn lögreglu. Somchai segir að hann geymi bæði Köngulóarmannsbúninginn og búning japönsku sjónvarshetjunnar Ultraman í skápnum sínum á slökkvistöðinni til að lífga upp á brunaæfingar í grunnskólum.