Kona í Bandaríkjunum handjárnaði sig við sofandi eiginmann sinn í þeim tilgangi að leysa hjónadeilu. Málið endaði hins vegar á versta veg því lögreglan var kölluð á staðinn og var konan handtekinn og ákærð m.a. fyrir líkamsárás.
Helen Sun handjárnaði sig við eiginmanninn, Robert Drawbough, á meðan hann var sofandi á heimili þeirra í Fairfield í Connecticut sl. mánudag. Að sögn lögreglu gerði Sun þetta til að útkljá deilur.
En þegar eiginmaðurinn hringdi í lögregluna brást Sun hin versta við. Hún réðst á manninn og beit hann í handleggina og í búkinn.
Lögreglan heyrði öskur og læti þegar hún var fyrir utan heimili hjónanna og hún varð að brjóta sér leið inn í húsið. Að sögn lögreglu hafði konan einnig skipt um lás á svefnherbergishurðinni.
Sun var m.a. ákærð fyrir minniháttar líkamsárás og fyrir að fjötra manninn sinn með ólögmætum hætti. Henni hefur verið sleppt úr haldi, en hún varð að greiða 400 dali í lausnargjald.
Lögreglan í Fairfield segist ekki hafa orðið vitni að öðru eins.