Átján ára gamall breskur unglingur á ekki von á góðu þegar hann kemur heim úr ferðalagi þar sem foreldrar hans voru að uppgötva að pilturinn hafi teiknað risavaxið reðurtákn á þak hússins fyrir ári síðan. Breskir fjölmiðlar greina frá þessu. Verkið er 18 metra langt og hefur vakið mikla athygli meðal þeirra sem fljúga yfir húsið í Berkshire.
Uppgötvuðu foreldrar hans verkið eftir að þyrluflugmaður byrjaði að fljúga með farþega yfir húsið til þess að mynda verkið. Ekki kemur á óvart að foreldrarnir hafi verið miður sín þegar þau komust að hinu sanna.
Var haft eftir föðurnum að það geti ekki staðist að það væri 18 metra langt reðurtákn á þaki hússins.
Móðirin hafði hins vegar áhyggjur af öðru sem snertir teikninguna en fyrirmynd piltsins á að vera Cerne Abbas Giant frjósemistáknið í Dorset. Telja ýmsir að táknið geti aukið á frjósemi og er ekki óalgengt að pör elskist í nágrenni þess til að auka líkur á þungun. „Við viljum ekki eignast fleiri börn svo vitneskjan um að við sofum undir risavöxnu frjósemistákni er frekar skelfileg," sagði móðirin.