Þeir sem eru ekkert endilega að hugsa um línurnar geta skroppið til Michigan í Bandaríkjunum, en aðdáendur hafnaboltaliðsins West Michigan Whitecaps geta nú pantað sér sannkallaða kaloríukjarnorkusprengju. Um er að ræða hamborgara sem er 4.800 hitaeiningar. Þeir sem geta klárað borgarann fá gefins bol.
Borgarinn kallast á frummálinu „Fifth Third Burger“, en hann er nefndur eftir leikvanginum þar sem liðið spilar. Í honum eru fimm 136 gramma kjötsneiðar, sem ættu að fá hreystimenni til að svitna.
Þetta er hins vegar aðeins byrjunin. Borgarinn er smurður chili-sósu, salsa-sósu, sýrðum rjóma, Frito-flögum og osti. Það er mikið af osti.
Ekki má gleyma grænmetinu, kál og tómatar. Loks er veislan fullkomnuð með hamborgarabrauði, en til að búa það til þarf um 450 grömm af deigi.
„Auk þess að vera sérstakur, stór og furðulegur, þá bragðast hann vel,“ segir Scott Lane, forseti Whitecaps.
„Ég er viss um að einhverjir brjálæðingar muni koma hingað og gera tilraun til að klára borgarann.“
Auk þess að innihalda um það bil tvöfalt magn af hitaeiningum - en venjulegur karlmaður þarf aðeins um 2.500 hitaeiningar yfir daginn - þá inniheldur hamborgarinn um 300 gr. af fitu, 744 mg af kólesteróli og yfir 10.000 mg af natríumi.