Indverskir vísindamenn keppast nú við að þróa karrý sem sé nothæft úti í geimnum, enda stefna Indverjar nú að því að senda mannað geimfar út fyrir lofthjúp jarðar í fyrsta sinn í lok áratugarins.
Matvælasérfræðingar og efnafræðingar eru því á fullu stími við að þróa þyngdarleysishæfa rétti sem láti geimfarana líða eins og þeir séu heima hjá sér á ferð sinni um geiminn. „Maturinn þarf að vera frostþurrkaður til að vera sem léttastur og þéttastur. Við erum byrjuð að vinna með karrýrétti með kjúklingi og lambakjöti, en líka grænmetisrétti með spínati, baunum og sveppum,“ segir Dr. A.S. Bawa í viðtali við AFP.
„Aðalmunurinn frá upprunalegu réttunum er sá hvernig þessu er pakkað, því flestir réttirnir þurfa að vera þannig að þú getir hellt vatni á þá og borðað þá án skeiðar. Helst þarf að vera hægt að sjúga matinn gegnum strá.“
Vísindastöðin sem vinnur að matarþróuninni hefur fram að þessu fyrst og fremst framleitt létta matarpakka í heimilislegum stíl fyrir indverska hermenn. Bawa viðurkennir að geimfararnir fái ekki að njóta þess besta sem indversk matargerðarlist hafi upp á að bjóða, en það sé líka eins gott því matur í geimnum þarf að vera auðmeltur og því ekki of kryddaður eða feitur.