Næstum 40 atvinnulausir New York búar köstuðu símum og tóku þátt í alls konar leikjum í gær á Ólympíuleikum atvinnulausra. Leikarnir fóru fram í Tompkins Square Park en hugmyndina átti Nick Goddard sem nýlega var sagt upp störfum.
„Þetta er bara léttur og skemmtilegur viðburður svo fólk fari úr húsi og skemmti sér,“ sagði hinn 26 ára gamli hugbúnaðarverkfræðingur. Fólk sem starfað hafði í bönkum, auglýsinga- eða skemmtanabransanum keppti m.a. í hlaupi sem kallaðist „hlaupið í átt að atvinnuleysi.“ Goddard segir viðburðinn kjörinn til að dreifa huga fólks og gera því kleift að kynnast öðrum í sömu stöðu.
Til að fá að taka þátt í leikunum varð fólk að framvísa uppsagnarbréfinu. Í laun fengu sigurvegarar gjafabréf á nálæga veitingastaði og bari sem styrktu leikana.