Mánudagur hefur misst sæti sitt sem versti dagur vikunnar, ef marka má nýlega rannsókn sem unnin var fyrir framleiðanda Bimuno fæðubótarefnisins í Bretlandi. Kom í ljós að ríflega helmingur þrjú þúsund þátttakenda notuðu mánudaginn til að „komast í réttan gír“ fyrir vikuna og slúðra um helgina á samskiptavefjum. Alvara lífsins hefst ekki fyrr en á þriðjudegi.
Rétt fyrir hádegi á þriðjudegi er álagið hvað mest, að sögn Grahams Waters hjá fæðubótarfyrirtækinu. Þá átta starfsmenn sig á því að vikan verður annasöm og tíminn til stefnu er naumur. Einnig kom í ljós að starfsmenn eru líklegastir til að sleppa hádegismat á þriðjudögum og nýta tímann til að vinna.
Það er breska dagblaðið Daily Telegraph sem greinir frá.