Pólskur stjórnmálamaður gagnrýnir stjórnendur dýragarðs í bænum Poznan í Póllandi harðlega fyrir að kaupa samkynhneigðan fíl.
Að sögn pólskra fjölmiðla hefur fíllinn Ninio, sem er 10 ára, nýlega bæst við í fílagirðinguna í Poznan. En svo virðist, sem hann kjósi frekar félagsskap karlfílanna en kvendýranna.
„Við borguðum ekki 37 milljónir zloty (um það bil 1,4 milljarða króna) fyrir stærsta fílahús Evrópu til að hýsa þar samkynhneigðan fíl," sagði Michal Grzes, þingmaður Laga- og réttarflokksins við pólska fjölmiðla. „Hvernig á Ninio að fjölga sér ef hann vill bara umgangast karlfílana?"
Forstjóri dýragarðsins segir hins vegar að Ninio sé ekki orðinn kynþroska enn og verði ekki fyrr en um 14 ára aldur. Því sé of snemmt að segja til um kynhneigð hans.