Norskur karlmaður á yfir höfði sér þunga sekt og ökuleyfissviptingu eftir að bifreið hans mældist á 133 km hraða á hraðbraut, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 100 km á klukkustund, skammt fyrir utan Ósló í Noregi í gærdag. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að maðurinn var með kærustu sína í fanginu, og þau í miðjum klíðum.
Að sögn lögreglu var akstur mannsins vítaverður, hann hafði ekki góða stjórn á bílnum og sá takmarkað út um framrúðuna þar sem konan var fyrir honum. Lögreglumenn eltu bifreið mannsins í nokkurn tíma áður en hann var stöðvaður.
Nöfn fólksins voru ekki gefin upp en þau eru bæði á þrítugsaldri, hann 28 ára og hún 22 ára.