Seðlabúnt í brjóstahaldara bjargaði lífi brasilískrar konu sem var skotin um borð í rútu í Bahia-ríki í norðausturhluta Brasilíu á laugardag.
Atburðurinn átti sér stað í Salvador, sem er höfuðstaður Bahia. Þar reyndu tveir vopnaðir menn að ræna rútunni með þeim afleiðingum að annar þeirra skaut hina 58 ára gömlu Ivonete Pereira í bringuna.
Pereira var á leiðinni í sumarhúsið sitt í bænum Lauro de Freitas þegar þetta gerðist. Þar sem árásir sem þessar eru tíðar á þessu svæði ákvað konan að fela 150 brasilíska ríala (tæpar 9000 kr.) í brjóstahaldaranum sínum. Seðlabúntið samanstóð af 10 og 20 ríala seðlum.
Þegar rútan ók í gegnum Boco do Rio stóðu ræningjarnir upp og greindu viðstöddum frá fyrirtætlunum sínum. Til skotbardaga kom þegar lögreglumaður á eftirlaunum, sem var í rútunni, dró upp um skammbyssu. Ein kúlan hæfði Pereira.
Brjóstahaldarinn var það vel þaninn af seðlum að konan lifði af. Það varð hins vegar að flytja hana á sjúkrahús til að fjarlægja byssukúluna.
Ræningjarnir myrtu lögreglumanninn og náðu að komast undan.