Þýska knattspyrnufélagið Energie Cottbus ætlar að endurgreiða 600 stuðningsmönnum félagsins aðgöngumiða eftir að liðið tapaði 4:0 fyrir Schalke á föstudag. Hefur Cottbus nú tapað sex af sjö síðustu leikjum sínum í þýsku deildinni og er í bullandi fallhættu.
Stuðningsmenn Energie Cottbus ferðuðust 610 km leið til Gelsenkirchen til að verða vitni að enn einu tapinu.
„Fyrirgefið, stuðningsmenn Energie," segir í yfirlýsingu á heimasíðu Cottbus. „Með því að endurgreiða aðgöngumiðana vilja leikmennirnir bæta fyrir þá hörmulegu frammistöðu, sem þeir sýndu á Veltins leikvellinum."
Sex umferðir eru eftir í þýsku úrvalsdeildinni. Cottbus er í næstneðsta sæti en Schalke á möguleika á Evrópusæti.