Hinn 8 ára gamli Kanadabúi Samuel Gross skilur ekki hvers vegna hann er nú kallaður læknisfræðilegt kraftaverk, en man heldur ekki eftir því þegar hann féll ofan í ísilagða á nærri heimili sínu og var ekki dreginn úr kafi fyrr en 20 mínútum síðar þann 9. apríl síðastliðinn.
Samuel var á göngu með vini sínum á bakka Whitemud river þegar hann rann ofan af snjóskafli í átt að ræsi í ánni þar sem straumurinn greip hann og sogaði hann í kaf. Vinir Samuels, faðir hans og nágrannar leituðu hans i í fullkominn örvæntingu í 20 mínútur áður en hann var dreginn upp úr vatninu, meðvitundarlaus og helblár í framan.
Eftir tveggja tíma lífgunartilraunir byrjaði hjarta Samuels loks að slá á eigin spýtur en læknar héldu líkama hans köldum næstu tvo sólarhringa í tilraun til að koma í veg fyrir bólgur í heila. Næstu fjóra daga lá Samuel í dái. Þá þegar þótti ótrúlegt að hann hefði þó lifað þrekraunina af þar sem lífslíkur í svo köldu vatni eru almennt ekki meiri en nokkrar sekúndur. Fjölskyldan var vöruð við því að hann hefði sennilega orðið fyrir alvarlegum heilaskemmdum vegna súrefnisleysis.
Kælingin sem heili drengsins varð fyrir vegna íssins í ánni virðist hinsvegar hafa bjargað lífi hans. Fyrir nokkrum dögum síðan opnaði hann augun í fyrsta skipti en sýndi enginn viðbrögð við áreiti og læknar óttuðust það versta. Á miðvikudag, tæpum 2 vikum eftir að Samuel nánast drukknaði, braust hinsvegar út mikill fögnuður á sjúkrahúsinu í Winnipeg þegar hann opnaði augun, lyfti handleggnum og sagði „ái“. Hann hefur síðan þulið upp afmælisdaginn sinn, farsímanúmer föður síns o.fl. að beiðni lækna og virðist virkni heilans ekkert hafa skerst. Læknar segja batann ótrúlegan og þakka það sérstökum aðstæðum í ánni og snörpum viðbrögðum nærstaddra.
Faðir drengsins er hinsvegar á annarri skoðun: „Bænum mínum hefur verið svarað,“ sagði hann fjölmiðlum. „Þetta er kraftaverk.“