Kjósendur í hjarta svissnesku Alpanna hafa kosið með lögum sem banna gönguferðir án klæða. Viðurlög eru rúmar tuttugu þúsund krónur. Málið kom til vegna Þjóðverja sem byrjuðu að venja komur sínar í íhaldssamt héraðið til að njóta náttúrunnar „á frjálsan og heilbrigðan hátt.“
Yfirvöld í Appenzell höfðu lagt bannið til eftir að íbúar höfðu tilkynnt um fólk á gangi í náttúrunni sem aðeins var íklætt gönguskóm og sokkum. „Viðbrögð íbúanna sýna að slíkar uppákomur vítt og breitt um héraðið eru truflandi og pirrandi,“ sagði talsmaður yfirvalda.
Appenzell hefur verið í uppáhaldi hjá nöktum þýskum ferðalöngum sem segja að nektargöngur eigi sér sögulegar rætur.