„Leikurinn hefur breyst,“ segir fyrrverandi yfirmaður hjá uppboðshúsinu Christie's í grein í The New York Times, þar sem fullyrt er að vegna niðursveiflunnar í efnahagslífinu kjósi margir seljendur listaverka frekar að selja þau beinni sölu en á uppboði. Þegar efnahagslífið er í uppsveiflu er sagt að uppboð geti tryggt betra verð, en í niðursveiflunni séu uppboðin áhættusamari. Þessvegna hafi sífellt fleiri seljendur kosið á síðustu mánuðum að selja verk fyrir fyrirfram ákveðið verð, en engu að síður með milligöngu uppboðshúsanna.
Verð á uppboðum hefur oftast nær verið undir matsverði upp á síðkastið, þótt á því séu undantekningar og skartgripir seljist til að mynda fyrir gott verð.
Jafnvel stofnanir á borð við Museum of Modern Art í New York forðast uppboð þessa dagana. Safnið hefur ákveðið að selja tvö málverk eftir Wayne Thiebaud frá sjöunda áratugnum, og hefur gengið til samstarfs við gallerí í eigu Christie's.