Ryanair mun ekki leggja aukagjald á farþega sem eru í yfirvigt ef það tefur flug félagsins, segir forstjóri félagsins, Micheal O'Leary. Í síðustu viku greindi félagið frá því að það væri í athugun að láta þá farþega sem eru í yfirvigt greiða hærri fargjöld en 29% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun á vegum Ryanair telja rétt að gera slíkt.
„Við munum ekki leggja á fituskatta nema það sé auðvelt í framkvæmd. Ef það kemur til með að tefja innritun eða flugtak þá gerum við það ekki," sagði O'Leary á blaðamannafundi í dag.
Alls tóku rúmlega 100 þúsund manns þátt í könnun Ryanair og voru 25% þeirra reiðubúnir til þess að greiða 1 evru fyrir notkun á salernispappír í flugi ef á honum væri mynd af O'Leary. Ákveðið var að fara af stað með könnunina eftir að ummæli forstjórans um að ein leið til þess að draga úr rekstrarkostnaði hjá Ryanair væri að láta farþega greiða fyrir salernispappír um borð í vélum félagsins.
Í könnuninni er fólk spurt um hvort karlmenn sem eru 130 kg eða meira eigi að greiða hærri fargjöld og eins konur sem eru yfir 100 kg. Hækkar gjaldið í samræmi við aukin kíló viðkomandi.