Kynlífsfíklum fer fjölgandi í Danmörku, að sögn danskra sérfræðinga, sem rekja þróunina einkum til þess að fólk hefur meiri möguleika á að skoða klámefni á netinu og klæmast á spjallvefjum. Þetta kemur fram á fréttavef danska ríkisútvarpsins.
Fréttavefurinn segir að Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn bjóði nú upp á hópmeðferð fyrir fólk sem hefur sjúklega þörf fyrir kynlíf og er með kynlíf á heilanum. 21 greindist með kynlífsfíkn á sjúkrahúsinu á síðasta ári, mun fleiri en árin á undan þegar um 6-8 greindust með fíknina á ári. Talið er þó að kynlífsfíklarnir séu fleiri því margir leita til sjálfshjálparhópa til að takast á við fíknina, að sögn fréttavefjar danska ríkisútvarpsins.
„Ég lýsi þessu sem viðvarandi ástandi sem veldur kvöl, einkennist af óstjórnlegum áhuga á kynlífi og hefur neikvæð áhrif á daglegt líf fólks,“ sagði Gert Martin Hald, sálfræðingur við Ríkissjúkrahúsið, þegar hann var beðinn um að lýsa kynlífsfíkn.