Þýski meinafræðingurinn og listamaðurinn Gunther Von Hagens, sem kallaður er „Doktor Dauði" þykir hafa gengið enn lengra en fyrr með nýjustu verkum sínum sem sýna lík í kynlífsathöfnum.
Verkin eru sýnd á sýningu hans „Lífshringurinn,” sem opnuð var í Berlin í morgun. „Listaverkin" umdeildu eru fjögur og eru til sýnis í sérstöku herbergi sem er bannað innan 16 ára. Í yfirlýsingu Von Hagens líkir hann verkum sínum við verk Leonardo da Vinci og segir þau veita áhorfendum tækifæri til að öðlast „djúpan skilning á mannslíkamanum, líffræði frjóvgunar og eðli kynlífs.”
Michael Braun, gagnrýnandi og þingmaður Kristilega demókrataflokksins CDU, segir að með verkunum gangi von Hagens lengra en nokkru sinni fyrr í smekkleysi sínu. Sjálfur segir Von Hagens verkin hins vegar sýna kynlífsathafnir á skýrara ljósi en áður hafi sést.
Annar þingmaður CDU Kai Wegner tekur undir með Braun. „Ég er algerlega sannfærður um að hann fer aftur og aftur yfir strikið til að græða peninga. Þetta snýst ekki um læknisfræði eða vísindi. Þetta er hrein og bein markaðssetning og gróðastarfsemi,” segir hann.
Líkin eru meðhöndluð með tækni sem Von Hagens hefur þróað til að varðveita þau og sýna vöðva, taugar og vefi í gegn um húðina. Milljónir manna hafa skoðað fyrri sýningu Von Hagens, Body Worlds, sem sett hefur verið upp víða um heim.