Tveir bandarískir ferðamenn sem fjarlægðu steinflís úr Colosseum hringleikahúsinu forna í Róm fyrir 25 árum hafa skilað henni til baka. Þá hafa þeir beðist afsökunar á gjörðum sínum.
Steinflísin, sem passar í vasa, var send í pósti frá Kaliforníu til Ítalíu. Í pakkanum var miði sem á stóð: „Við hefðum átt að gera þetta fyrr.“
Fornleifayfirvöld í borginni hafa tekið við afsökunarbeiðninni og yfirmaður ferðamála hefur boðið tvíeykinu að snúa aftur til Rómar.
Svo virðist sem að þjófnaðurinn hafi nagað samvisku þeirra lengi.
„Í hvert sinn sem ég leit á safnið mitt og sá þetta stykki þá fann ég fyrir sektarkennd,“ stendur skrifað í bréfinu.
„Eftir því sem árin liðu þá fór ég að velta því fyrir mér að ef allir gestirnir, sem heimsækja þetta fallega minnismerki, myndu taka með sér hluta þá myndi ekkert verða eftir að lokum.
„Þetta var sjálfselskur og yfirborðslegur verknaður,“ segir einnig í bréfinu.