Innbrotsþjófur nokkur var að athafna sig í húsi í Greve í Danmörku þegar dyrabjöllunni var hringt. Þjófurinn opnaði og fyrir utan stóð póstburðarmaður sem var að afhenda pakka. Þjófurinn tók við pakkanum, kvittaði á eyðublað póstsins og þakkaði fyrir.
Póstinum þótti þó ýmislegt einkennilegt við „húsráðandann" en þegar hann kom að dyrum hússins voru þær í hálfa gátt og virtust hafa verið brotnar upp. Þá stóð bíll í gangi í innkeyrslunni. Pósturinn skrifaði hjá sér númerið á bílnum og hringdi í lögregluna þegar hann sá tvo menn fara í bílnum skömmu síðar.
Að sögn Jótlandspóstsins stálu þjófarnir flatskjá úr húsinu. Þeir hafa ekki fundist enn og ekki er ljóst hvort þeir tóku með sér pakkann, sem pósturinn kom með.