Pólskur kaþólskur prestur hefur gefið út bók þar sem hann veitir giftu fólki ráðleggingar um hvernig hægt sé að hressa upp á kynlífið. Bæði er um tæknilegar og kenningarlegar ráðleggingar að ræða.
Í bókinni, sem nefnist, Kynlíf eins og þú þekkir það ekki: fyrir gift pör sem elska Guð, reynir presturinn, Ksawery Knotz, að breyta hugarfari margra um kynlíf og bábiljum sem eru um kynlíf giftra para. Segir hann að kynlíf í hjónabandi eigi ekki að vera leiðinlegt heldur fullt af óvæntum atvikum og hugarórum.
Bókin, sem er gefin út með samþykki kaþólsku kirkjunnar í Póllandi, hefur heldur betur slegið í gegn og hefur þurft að endurprenta hana eftir að Pólverjar bókstaflega rifu hana út úr hillum bókaverslana. Yfir fimm þúsund eintök seldust á fyrstu dögunum eftir að hún kom út, samkvæmt frétt BBC.