Dómstóll í Danmörku hefur fundið ritstjóra sjónvarpsþáttarins Kontant, sem sýndur er í danska ríkissjónvarpinu, sekan um ómannúðlega meðferð á dýrum en blaðamenn þáttarins helltu sjampói í gullfiskabúr til að sýna fram á að eiturefni væru í sápunni.
Þátturinn fjallaði um hættulegar hárvörur. Fréttamennirnir vildu sýna fram á hve flösusjampó, sem inniheldur efnið zinkpyrithion, væri hættulegt og þeir helltu því smávegis af sjampói í gullfiskabúr.
Eftir þrjá daga höfðu 12 af 13 fiskum í kerinu drepist. Rannsóknin leiddi til umræðu um notkun hættulegra efna í hárvörum en margir dýravinir brugðust einnig ókvæða við. Dýralæknir kærði Lisbeth Kølster, ritstjóra þáttarins, til lögreglu.
Rannsókn málsins tók 2 ár og síðan var málið tvö ár að velkjast í danska dómskerfinu en nú hefur héraðsdómur í Glostrup fundið Kølster seka. En vegna þess hve málsmeðferðin tafðist ákvað rétturinn að fresta refsingunni.
Rétturinn lagði til grundvallar, að blaðamenn danska ríkisútvarpsins hafi vitað fyrirfram, að fiskarnir myndu drepast.