Skólayfirvöld í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna íhuga nú að setja reglur um snertingu á skólalóðum. Á undanförnum árum hefur færst mjög í vöxt að nemendur heilsist og kveðjist með faðmlögum og þykir nú skólayfirvöldum víða nóg um. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Reglur um faðmlög hafa þegar verið settar í skólum í Oregon, New Jersey og Connecticut samkvæmt heimildum New York Times. Eru þau annað hvort bönnuð á skólalóðinni eða takmörkuð við þrjár sekúndur.
Segja skólastjórnendur þetta bæði gert til að koma í veg fyrir að öðrum nemendum finnist þeir útilokaðir og til að koma í veg fyrir óviðeigandi snertingu.„Líkamssnerting er mjög viðkvæmt mál,” segir Noreen Hajinlian, sem starfar við George G. White skólann í Hillsdale í New Jersey. „Það var allt of mikið um ónauðsynleg faðmlög. Þetta var á göngunum áður en nemendur fóru í tíma. Þetta var ekki bara þegar fólk heilsaðist og kvaddi. Þetta stóð yfir allan daginn.”
Amy L. Best, félagsráðgjafi við George Mason háskólanum, segist hins vegar ekki sjá neitt athugavert við faðmlögin og telur þau merki þess að unglingar séu sáttir við líkama sína og óhræddir við að nota á til eðlilegrar tjáningar.Víða hafa nemendur efnt til mótmælaaðgerða gegn takmörkunum á leyfilegri snertingu. „Þetta er bara okkar leið til að segja hæ,” segir Katie Dea nemandi í áttunda bekk í Claire Lilienthal Alternative School í San Francisco.„Ef einhver faðmar ekki aðra, það er að segja knúsar aldrei neinn, þá verður fólk svolítið meðvitað um það,” segir Gabrielle Brown, nemandi við Fiorello H. LaGuardia High School á Manhattan í New York. „Fólki finnst það skrýtið og sérvitringslegt.”