Boris Johnson, borgarstjóri Lundúnaborgar, missteig sig og féll ofan í ána Pool í Lewisham, sem er í suðausturhluta borgarinnar, þegar hann var að kynna hreinsunarátak. Þetta gerðist beint fyrir framan myndavélar fjölmiðlanna.
Verkefnið gengur út á það að fá borgarbúa til að leggja hönd á plóg, tína rusl og hreinsa til í kringum ána í sjálfboðavinnu. Johnson kynnti verkefnið með því að taka sjálfur til hendinni. Hann var að vaða í ánni þegar hann rann og féll ofan í ána, sem náði honum upp að bringu. Borgarstjórinn skjögraðist svo í burtu.
Aðrir sjálfboðaliðar aðstoðuðu Johnson og þakkaði hann þeim fyrir hjálpina. Í framhaldinu sagði hann við fréttamann BBC að vatnið væri hressandi.