Kvikmyndahúsagestir í Smárabíói ráku upp stór augu um kl. 17:30 í dag þegar Múmínálfarnir birtust á tjaldinu í stað Tortímandans, líkt og gestirnir höfðu gert ráð fyrir. Aðeins liðu örfáar mínútur þar til mistökin voru leiðrétt.
Jón Eiríkur Jóhannsson, rekstrarstjóri Smárabíós, segir að Múmínálfarnir hafi verið í sýningu í salnum á undan nýjustu kvikmyndinni um Tortímandann.
Þar sem um stafrænar sýningar sé að ræða hafi það aðeins tekið stutta stund að leiðrétta mistökin. Á meðan hafi gestirnir beðið rólegir.
Ef um filmu hefði verið að ræða hefði það hins vegar tekið sýningarstjórann um 30-45 mínútur að skipta um mynd.
„Þetta er vonandi góð auglýsing fyrir Múmínálfana,“ segir Jón Eiríkur.