Lögreglumenn í New York hafa fundið rotnandi lík manns í sendibíl sem stóð vikum saman óhreyfður fyrir neðan fjölfarin mislæg gatnamót, og fékk fjölmargar stöðubrotssektir á meðan.
Læknir hefur staðfest að maðurinn lést úr hjartasjúkdómi, að því er fram kemur í frétt BBC. Lík hans fannst í aftursæti bílsins þegar dráttarbíll var fenginn á staðinn til að draga bílinn í burtu, eftir að fólk hafði kvartað undan vondri lykt á svæðinu.
Lögregla segir stöðumælaverði ekki skoða sérstaklega inn í bílana sem þeir skilja sektarmiða eftir á.
Dóttir mannsins segist ekki skilja hvernig það gat farið fram hjá stöðumælavörðunum að faðir hennar væri í bílnum. „Þeir héldu bara áfram að sekta hann," segir hún. Dóttirin segist hafa tilkynnt um hvarf föður síns en lögreglan segist ekki hafa neinar tilkynningar um slíkt. Hins vegar væri verið að skoða málið nánar.