72 ára gömul langamma í Texas segist ætla að höfða mál gegn lögreglumanni, sem beitti rafbyssu á hana þegar hún vildi þrátta við lögreglumanninn um hraðasekt.
Lögreglumaðurinn Chris Bieze stöðvaði Kathryn Winkfein þar sem hún ók of hratt á þjóðvegi í ríkinu. Þegar hann ætlaði að afhenda Winkfein sektarmiða neitaði hún að taka við honum. Lögreglumaðurinn dró þá upp Taser rafbyssu, beindi henni að gömlu konunni og hleypti af.
Winkfein náði sér fljótt en hótar nú málaferlum en mynd náðist af atvikinu á eftirlitsmyndavél í lögreglubílnum.
Gary Griffin, lögreglustjóri, segir að Bieze hafi fylgt settum reglum en hann hafi verið að reyna að koma í veg fyrir að konan álpaðist út á hraðbrautina. Winkfein vísar því hinsvegar á bug að hún hafi verið ósamvinnuþýð.