Upp komst um bíræfin skóþjóf er skógarhöggsmaður hrasaði um skó sem voru á víð og dreif við bæli refafjölskyldu í grennd við smábæinn Foehren í vesturhluta Þýskalands.
Allt í kringum og í grennd við grenið voru ríflega hundrað skór sem tófan virðist hafa stolið til að skreyta það með eða til að leyfa yrðlingunum að leika sér í. Ekki fylgdi sögunni hvort skórnir voru í pörum.
Samkvæmt Reuters-fréttastofunni voru þarna allt frá strigaskóm upp í háhælaða kvenskó sem höfðu horfið frá hýbýlum fólks í grenndinni. Þó að reimarnar vantaði í marga skóna voru þeir margir hverjir í góðu ásigkomulagi og eigendurnir ánægðir með að endurheimta þá.
Ekki mun standa til að refsa rebba fyrir tiltækið en nágrannar hans munu tæplega skilja stígvélin sín oftar eftir við útidyrnar.