Bresk kona á þrítugsaldri hefur fjárfest fyrir hátt í þrjátíu milljónir króna (135 þúsund pund) til að líkjast bandarísku söngkonunni Britney Spears. Konan, Lorna Bliss, starfar sem Britney-eftirherma og tók m.a. fullan þátt í niðurlægingaskeiði Britneyar, s.s. með því að raka af sér hárið. Þetta kemur fram á vef Daily Mail.
Fljótlega eftir að Britney kom fram á sjónarsviðið með smellinn Baby One More Time var eftir því tekið hvað Bliss líkist henni. Frá árinu 2000 hefur hún svo sinnt starfi eftirhermunnar í fullu starfi og treður m.a. upp í afmælum og næturklúbbum.
Ég geri hvað eina sem Britney gerir og það getur verið mjög erfitt, sérstaklega þegar hún grennist og ég þarf að fara í megrun," segir Lorna sem áætlar að láta húðflúra á sig þær níu myndir sem Britney ber á líkama sínum. Hún þarf að verja miklum fjárhæðum í sérsniðna búninga, hárlengingar, danskennara og förðun svo eitthvað sé nefnt.
Bliss segir starfið hins vegar frábært. Hún fær að ferðast víðsvegar um heiminn og fólk eltir hana á röndum og biður um eiginhandaráritanir.