Hún endaði heldur illa bílferð elskenda í bænum Hörsholm í Danmörku. Bílnum var ekið á tengikassa sem stýrir sjónvarpssendingum í hluta bæjarins. Lögreglan hefur rökstuddan grun um að þeir sem í bílnum voru hafi verið að stunda kynlíf meðan á akstrinum stóð.
Bíllinn stórskemmdi tengikassann og af þeim sökum verða 500-1000 íbúar í Hörsholm að sætta sig við að hafa ekkert sjónvarp í kvöld.
"Við höfum ekki enn yfirheyrt eiganda bílsins, en okkur grunar að einhvers konar kynferðislegt athæfi hafi átt sér stað í þessari bílferð," sagði Sören Greve, í samtali við norska blaðið VG.
Lögreglan byggir grun sinn á því að hálftíma fyrir slysið var parið beðið um að yfirgefa einkabílastæði þar sem það var að stunda ástarleik.
Tekið er fram í blaðinu að lögreglu gruni ekki að nein önnur víma en ástarvíma hafi haft áhrif á aksturslag bílstjórans.