Einn af deildarstjórum alþjóðlegrar ráðstefnumiðstöðvar í Barcelona á Spáni hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa ráðið kólumbíska leigumorðingja til að myrða forstjóra stofnunarinnar.
Spænska blaðið El País segir, að deildarstjórinn hafi með þessu viljað koma í veg fyrir að hann yrði rekinn úr starfi.
Forstjórinn var myrtur 9. febrúar. Hann hafði þá gert áætlun um niðurskurð og sparnað í rekstri og samkvæmt þeim áætlunum átti deildarstjórinn að missa vinnuna.
Deildarstjórinn fékk þá aðstoð systur sinnar við að ráða sex manna hóp leigumorðingja sem skipulagði og framdi morðið. Lögreglan hefur einnig handtekið systurina og Kólumbíumennina sex.