Finnar bundu í dag enda á 11 ára sigurgöngu Eista og hlutu bæði gull- og bronsverðlaun í hinni árlegu Heimsmeistarakeppni í eiginkvennaburði sem haldin er í Sonkajaervi í mið-Finnlandi.
Taisto Miettinen hljóp eftir 250 metra langri brautinni, með tveimur hindrunum og sundlaug, á aðeins 62 sekúndum með Kristiinu Haapanen á bakinu. Parið voru þannig 0,1 sekúndu fyrr í mark en eistnesku keppendunum Alar Voogla og Kristi Viltrop.
Miettinen hefur tekið þátt í keppninni á hverju ári í heilan áratug og sagðist í skýjunum yfir að hafa loksins farið með sigur af hólmi. „Ég hef nokkrum sinnum tapað með 0,1 sekúndu mun og ég hef líka hrasað. Sigurinn í dag er virkilega sætur,“ hefur AFP fréttastofan eftir honum.
Þorpið Sonkajaervi, um 490 kílómetra norður af Helsinki, hefur komið sér á kortið með keppninni síðastliðin 14 ár og vakið heimsathygli. Keppendurnir í ár komu frá 8 löndum, þ.á.m. Ástralíku, Írlandi og Tékklandi.
Hugmyndin af keppninni er byggð á sögusögnum af ræningjanum Herkko Rosvo-Ronkainen sem hafðist við í skógi nærri þorpinu og er sagður hafa rænt mat og stundum hrifið á brott konur úr þorpum í héraðinu.