Nóttin kostar allt niður í sex pund eða sem svarar 1.200 krónum og þurfa gestir að yfirgefa vistarverurnar möglunarlaust kl. sjö að morgni eftir að hafa staðið í biðröð fyrir utan einu, ísköldu sturtuna sem er í boði. Allt prjál er lagt til hliðar og er óþarfa lúxus á borð við glugga og sjónvarp víðsfjarri á Núll stjörnu hótelinu, Null Stern Hotel, í svissneska bænum Sevelen.
„Hótelið er andhverfa lúxussins og mikilmennskubrjálæðistímanna sem við lifum,“ segir Patrick Riklin, annar eigenda hótelsins, sem hann á ásamt bróður sínum, Frank, en það er hannað í anda naumhyggju.
Þótt gestir geti þurft að grípa til hitapoka sem hótelið útvegar til að orna sér á í köldum vistarverunum geta þeir sofið vært í trausti þess að herbergin eru byggð inn í gamalt kjarnorkubyrgi. Ætlunin er að breiða út fagnaðarerindið og opna útibú um víða veröld. Ekki fylgir sögunni hvort skilyrðið sé að hótelið sé í kjarnorkubyrgi en það hlýtur að teljast bónus.