„Hæ Fredrik! Ég heiti William og er fimm ára. Geturðu ekki ákveðið að búðir eigi að hætta að selja nammi? Þá get ég sparað peningana mína til að kaupa armband og töfrateninga.“ Þannig hljómaði bréf sem sænskur strákur sendi til forsætisráðherrans, Fredrik Reinfeldt.
Hinn fimm ára gamli William þurfti ekki að bíða lengi, því hann fékk svar um hæl frá forsætisráðherranum sem sænska blaðið Dagens Nyheter birtir í dag: „Takk fyrir bréfið,“ svarar forsætisráðherrann. „Mörgum finnst gott að fá sér svolítið nammi öðru hverju. Ef maður vill ekki borða nammi, þá getur maður líka ákveðið að kaupa það ekki. Þess vegna held ég að bann við nammisölu sé ekki sniðugt. Mér finnst samt frábært að þú kjósir sjálfur að borða ekki nammi. Þá getur þú til dæmis sparað peningana þína eða kannski keypt armbandið sem þú skrifaðir um. Hvernig sem fer vil ég óska þér góðs sumars! Kær kveðja, Fredrik Reinfeldt.