Sjónvarpsmaðurinn James May úr bílaþáttunum vinsælu Top Gear leitar nú að sjálfboðaliðum til að hjálpa við að byggja sér nýtt hús. Húsið verður alfarið gert úr legókubbum.
May stjórnar nú nýjum þætti á BBC sem kallast „Toy Stories“ eða Leikfangasögur og í tengslum við þanng þátt hyggst hann reisa sér tveggja hæða hús úr legókubbum í Surrey á Englandi. Nú þegar er búið að flytja yfir 3.000.000 legókubba á byggingarreitinn.
Á laugardaginn í næstu viku verður blásið til byggingardags og býður May hverjum sem er úr nágrenninu að koma og aðstoða sig við að kubba. Húsið verður í fullri stærð með stigagangi á milli hæða, klósetti og sturtu og hefur May lýst því yfir að hann muni búa í húsinu í nokkra daga þegar það verður tilbúið. Eftir sem áður mun legóhúsið aðeins standa tímabundið.
Að sögn May hefur hann mætt ýmsum áskorunum við að láta legóhúsið sitt verða að veruleika. „Ég er með mann sem vinnur að því að þróa sturtunarbúnað fyrir legóklósett. Við teljum að það sé geranlegt,“ segir May.
„Ýmis atriði eins og rafmagnskerfi, snyrtiaðstaða og pípulagnir...allt í húsinu mínu verður að vera úr legói ef það er mögulegt.“ May segist ekki vera viss um að hann hafi sankað að sér nóg af kubbum þótt hann hafi þúsundir þeirra nú þegar.
„Þannig að ef fólk á legókubba sem það er ekki að nota en er til í að gefa til þessa verðuga frumkvöðlastarfs með Legó, þá skal ég glaður losa ykkur við þá.“ Í sjónvarpsþáttunum hefur May nú þegar byggt stærsta flugvélamódel í heimi og fyrsta garð í heiminum sem er alfarið gerður úr leir.