Handskrifaður brandari er leikritaskáldið George Bernard Shaw skráði fyrir 79 árum er kominn í leitirnar. Blaðið með brandaranum fannst í skúffu á gömlum skáp er hefur verið óhreyfður allan þennan tíma.
Skápurinn var í eigu Verkamannaflokks Wimbledon og hafði Shaw sent þeim brandarann til þess að fagna opnun veislusalar í William Morris House. Brandarinn stóð undir mynd af írska leikskáldinu Shaw er var einnig þekktur sósíalisti.
Hann hljóðar svo: „William Morris og ég predikuðum fyrir Verkamannaflokkinn við mörg tækifæri. Margir heiðvirðir menn voru á því að það ætti að hengja okkur fyrir. Það er mér mikill heiður að fá nú að hanga í veislusal sem tileinkaður er honum.“
Peter Walker, er fann brandarann, segir hann afar verðmætan fjársjóð. Þá sé hann góð heimild um hina róttæku sögu heimaslóða Shaws sem oft vill gleymast.