Venjulegur hundur skilur 165 orð og merki og hefur því sömu tungumálaleikni, ef svo má að orði komast, og tveggja ára barn. Skynsamir hundar geta skilið allt að 250 orð og merki, eða bendingar, og geta þar að auki reiknað einföld dæmi í huganum.
Tilraunirnar sem háskólinn í bresku Kólumbíu fór fyrir þykja leiða í ljós að venjulegur hundur er mun greindari en talið hefur verið en border collie, eða merkjakoli, og retriever hundar þykja klárastir en veiðihundar og terríer, ýmsir smávaxnir hundar af völskuhundakyni, óskynsamastir.
Klárustu hundarnir geta sem fyrr segir skilið allt að 250 orð og merki, eða jafn mikið og tveggja og hálfs árs gamalt barn, en um fimmtungur hunda er svo leikinn.
Stanley Coren, prófessor og sérfræðingur í greind hunda við háskólann í bresku Kólumbíu í Vancouver, fór fyrir rannsókninni en hann telur hunda með greindustu skepnum og jafn snjalla og apar og páfagaukar þegar kemur að getu til að skilja tungumál.
Nánar er fjallað um málið á vef Daily Telegraph.