Viðskiptavini lágvöruverðsverslunar í Þýskalandi brá heldur betur í brún þegar hann tók eftir því að eitrað illgresi var að finna í poka með blönduðu salati sem hann keypti. Hefur heit umræða farið af stað í landinu í kjölfar þessa frétta.
Leifar af krossfífli, sem inniheldur efni sem geta valdið alvarlegum lifrarskemmdum, fannst í pokanum í versluninni Plus í Hanover. Viðskiptavinurinn tók eftir þessu þar sem hann er fróður um matjurtir.
Talsmaður verslunarinnar segir að það sé mjög erfitt fyrir óvant fólk að taka eftir þessu. Þá segir hann að brugðist hafi verið strax við og allir salatpokarnir fjarlægðir úr versluninni.
Sýni voru send til efnagreiningar hjá háskólanum í Bonn. Þar fundust rúmlega 2.500 míkrógrömm af eiturefninu í 150 gramma salatpoka. Það er 2.500 sinnum meira en ráðlagður dagsskammtur, að því er segir í þýskum fjölmiðlum.
Ráðherra neytendamála í Rheinland-Palatine, Margit Conrad, hefur hvatt viðskiptavini til varkárni og að hafa augun opin þegar þeir versla.
Fram kemur í yfirlýsingu frá Conrad að þrátt fyrir að eitthvað líti út fyrir að vera ávöxtur eða grænmeti þá sé það ekki endilega ætt.