Ástralskur vísindamaður segir að Ástralir þurfi fimm eða sex árstíðir til að mæta loftslagi álfunnar. Nauðsynlegt sé að losa sig við árstíðirnar fjórar sem Ástralir hafi erft frá Bretum.
Vísindamaðurinn, Tim Entwisle, sem er yfirmaður konunglegu grasagarðanna í Sydney, hefur lagt til árstíðina „sprummer“ á milli vors og sumars og „sprinter“ sem undanfara vorsins. Entwisle segir að nýtt kerfi gæti auðveldað fólki að skilja umhverfi sitt og taka betur eftir merkjum loftslagsbreytinga.
„Fjórar þriggja mánaða árstíðir eru út í hött í okkar heimkynnum,“ hefur BBC eftir Entwisle. Frumbyggjar Ástralíu nota allt að átta árstíðir til að skilgreina tíðarfar í sumum hlutum landsins. Entwilse segir jafnframt að til að slíkt kerfi virki vel sé nauðsynlegt að notast við mismunandi fjölda árstíða fyrir ólík svæði. Hann hefur hvatt til þess að málið verði rætt á landsvísu og að samkeppni verði haldin um heiti nýju árstíðanna.