Stærðfræðingur við háskólann í Sydneyí Ástralíu segist nú hafa reiknað það út að tólfta ástin sé yfirleitt sú eina sanna. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Við erum svo vön því að segja: 'Hann er sá rétti' en flest okkar hafa svo litla reynslu að baki þegar við úrskuðum einhvern þann eina sanna að það endar oft með skilnaði,” segir stærðfræðingurinn Clio Cresswell.
Hún hefur komist að þeirri niðurstöðu, með flóknum reiknisaðferðum, að einstaklingar þurfi að eiga tólf ástarsambönd að baki til að vita í raun og veru hver sá eini rétti sé. Þá segir hún niðurstöðurnar sýna að val fólks á lífsförunauti byggist oftar en ekki á tilviljunum og órökvísi.
„Frú eða herra lífsföruneuatur kemur ekki bara stökkvandi inn í líf okkar. Við þurfum að vinna að því. Þegar við ætlum að kaupa okkur nýjan bíl þá leggjum við mun meiri rannsóknarvinnu í að finna réttu gerðina en þegar við verðum ástfangin,” segir hún.
Danski sambandsráðgjafinn Rikke Thuesen segir rannsóknir Cresswell spennandi en að hún telji þó ekki að hægt sé að reikna það út hvenær fólk finni hentugasta lífsförunautinn.
Hún segist þó telja líklegt að margir eigi náin kynni við tólf einstaklinga áður en þeir festi ráð sitt. Í nútímasamféagi geti fólk hins vegar átt náin kynni án þess að um sé að ræða raunveruleg ástarsambönd. „Byrji maður að slá sér upp fimmtán ára og festir síðan ráð sitt um þrítugt þá gengur það mjög vel upp,” segir hún.
Hún segir þó mikilvægast að fólk velji sér lífsförunaut út frá lífsgildum. „Veldu einhvern sem þér líður vel með, sem þér finnst passa vel fyrir þig og sem á svipuð áhugamál. Ekki einhvern sem þú þarft að eltast við,” segir hún.