Eigandi tóbaksverslunar á yfir höfði sér háa sekt fyrir að hafa gefið viðskiptavinum sínum ókeypis kaffibolla. Verslunin, Barclay Rex, er undanþegin reykingabanni New York-borgar, þar sem ekki er um veitingastað að ræða.
Í versluninni geta viðskiptavinir fengið sér sæti og kveikt í vindlum, sem þeir kaupa á staðnum. Hingað til hefur kaffivél staðið í einu horni verslunarinnar og hafa gestir getað fengið sér sjálfir bolla.
Heilbrigðisyfirvöld fundu hins vegar að þessu fyrirkomulagi og hótuðu eigandanum, Vince Nastri, sektum fyrir að bjóða upp á kaffi án þess að hafa til þess tilskilið leyfi. Í stað þess að berjast við yfirvöld hefur Nastri fjarlægt kaffivélina, en er mjög ósáttur. Þurfa gestir hans nú að kaupa kaffibolla annars staðar og koma með inn í Barclay Rex.