Vellauðug kínversk kona greiddi fjórar milljónir júana (um 75 milljónir kr.) fyrir hund. Konan flaug sérstaklega til að kaupa hundinn og hún fór svo fram á það að 30 glæsibifreiðar myndu taka fagnandi á móti sér og hvuttanum á flugvellinum.
Konan flaug með hundinn, sem er svartur tíbetskur mastiff, til borgarinnar Xi'an, sem er höfuðstaður Shaanxi-héraðs. Hún hafði keypt hundinn í Qinghai- héraði í norðvesturhluta Kína, þar sem meirihluti íbúanna eru Tíbetar.
Tveir jeppar fóru svo fyrir bílalest 30 svartra Mercedes-Benz glæsibifreiða sem sóttu konuna og hundinn, sem svarar kallinu Yangtze-á Númer Tvö, í gær.
Á flugvellinum voru jafnframt mættir hundavinir til að fagna komu hundsins. Þeir héldu m.a. á stórum rauðum borða þar sem hvutta var boðinn velkominn.
Konan, sem heitir Wang, segist hafa leitað lengi að tíbetskum mastiff. „Það er hægt að verðleggja gull, ekki þennan tíbetska mastiff,“ sagði hin vellauðuga unga kona.