Breskur karlmaður, sem var í gönguferð með hundinum sínum, lenti í kröppum dansi þegar kúahjörð neyddi hann til að leita skjóls í Thamesá í Oxfordskíri í rúma klukkustund.
Maðurinn, sem er frá London, var að ganga eftir stíg skammt frá bænum Radcot þegar kýrnar hófu að elta hann. Hann hringdi í lögregluna og óskaði eftir aðstoð og um tíma var lögregluþyrla sett í viðbragðsstöðu.
Lögreglan í Thamesdal segir að lögreglumaður, sem hefur reynslu af því að reka kýr, hafi gefið manninum leiðbeiningar. Hann sagði honum að vera ákveðinn við dýrin og veifa handleggjunum. Og ef hann væri með prik þá væri það enn betra.
Þetta virðist hafa gengið upp því maðurinn hitti lögreglumenn á hóteli í Radcot sem könnuðu hvort manninum hefði orðið meint af þessum viðskiptum.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að maðurinn hafði verið í ánni í um 20 mínútur áður en hann hafði samband við lögregluna.