Meðal Bretinn, bæði karlar og konur, hafa sofið að jafnaði hjá 2,8 milljónum manna en raunar óbeint, samkvæmt tölum sem birtar voru í dag. Um er að ræða lið í átaki til að hvetja almenning til að gæta að kynheilsu sinni.
Bresk netlyfjasala, lloydspharmacy.com, hefur birt reiknivél á netsíðu sinni þar sem hægt er að reikna út hversu mörgum rekkjunautum menn tengjast. Með því móti vill lyfsalan vekja athygli á hættu á útbreiðslu kynsjúkdóma. Útreikningarnir byggja á fjölda rekkjunauta, fyrrum rekkjunautum þeirra og síðan koll af kolli í sex „kynslóðir."
Breskir karlmenn segjast að jafnaði hafa sofið hjá 9 konum en konur hjá 6,3 körlum að jafnaði. Meðaltalið er því 7,65.
„Þegar við sofum hjá einhverjum erum við í raun ekki aðeins að sofa hjá þeim heldur fyrri rekkjunautum þeirra og svo framvegis," segir Clare Kerr, yfirmaður kynheilsudeildar Lloydspharmacy.
„Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hve berskjaldað það er gegn kynsjúkdómasmiti og að það geri viðeigandi ráðstafanir með því að nota smokka og leita til læknis ef eitthvað kemur upp á."