Fangelsisyfirvöld í Dorset á Englandi hafa látið fjarlægja allt sótthreinsigel úr fangelsi þar sem einn fanganna fannst drukkinn. Talið er að fanginn hafi komist í áfengisvímu með því að drekka gelið.
Gelinu var dreift í Verne-fangelsi í Portland sl. mánudag í þeim tilgangi að hefta útbreiðslu svínaflensunnar.
Talsmaður samtaka fangavarða segir hins vegar að aðeins örfáum klukkustundum síðar hafi komið upp atvik innan veggja fangelsins þar sem drukkinn fangi kom við sögu.
Málið er í rannsókn og gelið hefur verið fjarlægt. Talið er að því hafi verið blandað saman við drykk, sem fanginn hafi svo neytt.