Ferðamálasamtök Wisconsinríkis í Bandaríkjunum, Wisconsin Tourism Federation, hafa tekið þá ákvörðun að skipta um nafn þar sem skammstöfun samtakanna, WTF, þótti ekki tilhlýðileg.
Hafa samtökin tekið upp nafnið Tourism Federation of Wisconsin, að því er fram kemur í Daily Telegraph.
Starfsmönnum samtakanna var þýðing skammstöfunarinnar WTF (What the fu**?) óljós þangað til merki samtakanna birtist á bloggsíðu á veraldarvefnum sem heldur til haga óheppilegum merkjum ýmissa fyrirtækja og samtaka. Samtökin sáu sig því knúin til að breyta nafni sínu og merki sem hefur til þessa haldist óbreytt allt frá stofnun árið 1979.