Flugfélagið Air India segist vera að rannsaka ásakanir um að flugmenn og flugfreyjur hafi slegist framan við furðu lostna farþega í flugvél, sem var á leið frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum til Delhi á Indlandi.
Blaðið The Times of India segir að átökin hafi byrjað eftir að flugfreyja sakaði flugmann um kynferðislega áreitni. Leikurinn barst eftir gangi farþegarýmisins en um 100 farþegar voru í vélinni.
Fullyrt er, að stjórnklefi Airbus A-320 flugvélarinnar hafi verið mannlaus um hríð og einn flugmannanna hótaði að snúa vélinni við og lenda í Pakistan.
24 ára gömul flugfreyja og aðstoðarflugmaður fengu áverka í átökunum. Blaðið hefur eftir lögreglu, að búið sé að taka skýrslur af mörgum sjónarvottum.
Air India hefur vikið tveimur flugmönnum og tveimur flugfreyjum hafi verið vikið frá störfum á meðan rannsókn málsins stendur yfir.