Ljósmyndari hefur verið dæmdur til að endurgreiða breskum hjónum hluta af þóknuninni fyrir brúðkaupsmyndatöku auk sárabóta. Af 400 myndum sem ljósmyndarinn tók voru aðeins 22 nothæfar.
Ljósmyndarinn missti af því þegar hjónin skáru brúðkaupstertuna, margar myndanna voru illa lýstar eða skakkar, vantaði höfuð inn á margar myndir eða viðfangsefnin horfðu ekki inn í vélina.
Marc og Sylvia Day höfðu leitað út um allt að hæfum ljósmyndara og töldu sig heppin þegar þau fundu ljósmyndarann Gareth Bowers. Þau urðu þó aldeilis fyrir vonbrigðum og segja að um sé að ræða minningar sem þau geti aldrei fengið aftur.
Í samningnum við Bowers var líka kveðið á um að starfsmaður hans tæki brúðkaupið upp á myndband. Starfsmaðurinn missti hinsvegar af því þegar hjónin mættu í brúðkaupsveisluna og á myndbandinu sést þegar starfsmaðurinn missir vélina í jörðina í eitt skipti og bölvar. „Upptökumaðurinn missti af því þegar við mættum í veisluna svo í staðinn tók hann upp þegar bílstjórinn opnaði bílhurðina með engan í bílnum,“ segir Marc Day.
Ekki nóg með það heldur sá Bowers um að útbúa þakkarkort fyrir hjónin til að gefa gestunum. Þar voru nöfn þeirra beggja vitlaust stafsett. Á þeim stóð „Þakka ykkur fyrir - Slyvia & Mark“.
Það er því kannski ekki að undra að hjónin fóru í mál við Bowers fyrir lélega þjónustu en þegar þau réðu hann borguðu þau honum 290 þúsund kr.