Ríkisstjórn Maldíveyja ætlar að halda ríkisstjórnarfund neðansjávar 17. október nk. til að vekja athygli á hlýnun jarðar. Mohamed Nasheed, forseti landsins, og ríkisstjórn hans munu undirrita skjal þar sem kallað er eftir því að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Ráðgjafi forsetans segir að það sé skemmtilegt fyrir ríkisstjórnina að geta fengið að kafa, en þrátt fyrir það vilji stjórnvöld senda út alvarleg skilaboð um hækkandi sjávarstöðu.
Hvergi í heiminum er meira láglendi en á Maldíveyjum og ef yfirborð sjávar mun hækka geta þær horfið.
Ráðgjafinn segir að ráðherrarnir muni tjá sig með táknmáli og muni nota vatnsheld spjöld og penna við undirritunina.